Viðskipti innlent

Álit Seðlabankans hafði ekki áhrif á ákvörðun Ársreikningaskrár

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að álit Seðlabankans hafi ekki haft nein áhrif á þá ákvörðun Ársreikningaskrár að synja Kaupþingi um leyfi til að gera upp í evrum.

Þetta kom fram í máli hans á blaðamannafundi í Seðlabankanum í dag þar sem rætt var um nýja stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Davíð sagði rétt að Seðlabankinn hefði í áliti sínu bent á að það kynni að hafa neikvæð áhrif á peningamálastefnuna ef stóru fjármálafyrirtækin færu að gera upp í evrum.

Ársreikningaskráin hefði hins vegar ekkert gert með álit Seðlabankans og hann teldi að hún hefði ekki gert neitt rangt í málinu. Skráin hefði einfaldlega farið yfir tölur Kaupþings og bankinn hefði ekki uppfyllt ákvæði laga í þessum efnum.

Forsendan fyrir að fá að gera upp í evrum hefði verið sú að Kaupþing yrði að ganga frá kaupum á hollenska bankanum NIBC fyrir áramót en af því hafi ekki orðið. Það væri því fráleitt að saka Seðlabankann um eitthvað óeðlilegt í þessum efnum.

Eins og kunnugt er hefur fjármálaráðuneytið nú til umfjöllunar kæru Kaupþings vegna ákvörðunar Ársreikningaskrár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×