Viðskipti innlent

Töluvert dregur úr greiðslukortanotkun

Greiðslukortavelta í janúar nam rúmum 60 milljörðum kr. Þar af nam innnlend velta um 56 milljörðum kr. Ársaukning veltunnar nú í upphafi árs töluvert minni samanborið við þróunina á síðari helmingi síðasta árs, en greiðslukortavelta er mikilvæg vísbending um þróun einkaneyslu.

Samanborið við janúar 2007 jókst veltan um 2,2% að raunvirði, miðað við vísitölu neysluverðs ásamt leiðréttingu fyrir breytingum í gengi krónunnar, samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar kemur fram að athyglisverð fylgni er á milli þróunar húsnæðismarkaðar og einkaneyslu. Mikill gangur á húsnæðismarkaði auðveldar skuldsetta einkaneyslu, en í janúar hægði töluvert á veltu á húsnæðismarkaði og húsnæðislánveitingum banka.

Undir lok ársins 2006 var svipað uppi á teningnum, þegar aðgengi að lánsfé versnaði, fjöldi samninga dróst saman og hægði á kortaveltu. Gera má ráð fyrir því að ef frekar hægir á húsnæðismarkaði muni það draga úr einkaneyslu, og raunar má segja að þessi hóflega aukning kortaveltunnar sé fyrsta vísbending um hægari vöxt einkaneyslu á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×