Viðskipti innlent

Ekstra Bladet biður Kaupþing afsökunar og borgar skaðabætur

Danska blaðið Ekstra Bladet hefur beðið Kaupþing afsökunar vegna greinaskrifa um starfsemi bankans haustið 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþingi. Ekstra Bladet mun einnig greiða umtalsverðar skaðabætur og bæta Kaupþingi hæfilegan lögfræðikostnað.

Í greinunum voru settar fram alvarlegar ásakanir í garð bankans og stjórnarformannsins Sigurðar Einarssonar. Birtust greinar á vefsíðu blaðsins bæði á dönsku og ensku.

Segir Kaupþing að ásakanirnar hafi verið með öllu ósannar og hafi valdið bæði fyrir bankanum og stjórnarformanninum skaða. Þar sem blaðið féllst ekki á að draga þessar staðhæfingar til baka og biðjast afsökunar ákvað Kaupþing að stefna útgefanda og ritstjórum Ekstra blaðsins í Lundúnum sem er fjármálamiðstöð Evrópu og heimaborg Sigurðar Einarssonar.

Kaupþing segir Ekstra blaðið svo hafa leitast eftir sátt í málinu og hafa beðið bankann afsökunar fyrir dómstólnum. Blaðið samþykkti einnig að birta afsökun á heimasíðu sinni og verður hún látin standa þar í einn mánuð. „Með þessu fellst blaðið með afdráttarlausum hætti á það að Kaupþing hafi í einu og öllu farið eftir lögum og góðum viðskiptaháttum í sinni starfsemi," segir í tilkynningu Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×