Viðskipti innlent

Neikvæð fjölmiðlaumfjöllun stoppar ekki Icesave

Icesave gengur gríðarlega vel þrátt fyrir neikvæða fjölmiðlaummfjöllun í Bretlandi.
Icesave gengur gríðarlega vel þrátt fyrir neikvæða fjölmiðlaummfjöllun í Bretlandi.

Þrátt fyrir neikvæðar fréttir í garð Icesave, innlánareikning Landsbankans, í Bretlandi halda Bretar áfram að stofna reikninga. Í gær stofnuðu 1100 nýir einstaklingar reikninga í Icesave sem er þrefalt meira en dagsmeðaltal frá stofnun.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við Vísi að það sé gleðilegt að neikvæðar fréttir hafi ekki haft nein áhrif á Icesave. "Þetta gengur fínt. Við fengum reyndar 40 fyrirspurnir vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar en það er ekki mikið á meðan við erum með 175 þúsund notendur," segir Sigurjón en í grein í The Sunday Times í gær voru reikningseigendur hvattir til að huga að vel að fjármunum sínum sem geymdir eru á breskum innlánsreikningum Landsbankans og Kaupþings. Blaðið hvetur fólk til að geyma ekki meira en 35 þúsund pund eða um 4,6 milljónir inn á reikningum en það er sú upphæð sem breska ríkið gengur í ábyrgð fyrir á innlánsreikningum.

Sigurjón segir að góður gangur hafi verið hjá Icesave frá áramótum og 30-40 þúsund nýir reikningseigendur hafi bæst í hópinn á þessu ári. "Í síðustu viku var meðal annars metfjöldi umsókna í einni viku frá upphafi en þó sóttu um tíu þúsund manns um opnun reikninga," segir Sigurjón.

Frá því að Icesave var stofnað fyrir um 420 dögum hafa Bretar stofnað um 175 þúsund reikninga.

Kaupþing hefur heldur ekki fundið fyrir þessari neikvæðu umfjöllun. Benedikt Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Kaupþings, sagði í samtali við Vísi að hún hefði ekki haft nein áhrif á Kaupthing Edge, nýstofnaðan innlánsreikning Kaupþings í Bretlandi. "Þróunin hefur verið mjög góð og stöðug frá byrjun og þessi umfjöllun hefur ekki haft nein áhrif," sagði Benedikt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×