Viðskipti innlent

Vill að Grænland láni Íslandi eins og Færeyjar ætla að gera

Josef Motzfeldt þingmaður IA flokksins og einn af fulltrúum Grænlands á þingi Norðurlandaráðs vill að Grænlendingar láni Íslendingum eins og Færeyingar ætla að gera. Vandinn er bara sá að Grænlendingar glíma við viðvarandi halla á fjárlögum sínum.

Motzfeldt sem er fyrrum fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Grænalnds segir í samtali við grænlenska blaðið Sermitiaq að það sé á neyðarstundu sem maður þekkir vini sína best. Og Ísland sé nú í mjög alvarlegri stöðu.

Hann segist ætla að beita sér fyrir lagabreytingu á grænlenska þinginu svo hægt sé að veita lán til Íslands þrátt fyrir fjárlagahalla landsins. "Spurningin er hvort við getum ekki skorið niður á einhverjum sviðum hjá okkur svo við getum að minnsta kosti komið nágranna okkar til aðstoðar í hremmingum hans," segir Motzfeldt.

Í sömu frétt er rætt við Högna Hoydal formann Þjóðveldisflokksins í Færeyjum. Högni segir að lánveiting Færeyja sé öðrum þræði hugsuð til að þrýsta á dönsk stjórnvöld að þau auki við aðstoð sína við Íslendinga.

"Ef Danir myndu veita lán eins og Færeyingar og miðað við höfðatölu ættu þeir að leggja Íslendingum til lán upp á 300 milljarða (danskra) króna," segir Högni en það samvarar rúmlega 6.000 milljörðum kr.

 

 




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×