Viðskipti innlent

Hagnaður SPRON 3,3 milljarðar eftir skatta

SPRON hagnaðist um 3,3 milljarða eftir skatta árið 2007 en þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins sem birt var í dag. Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON segir afkomuna vera vel viðundandi í ljósi mikilla lækkana á hlutabréfamörkuðum.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 11,5 prósent á árinu og hrenar rekstrartekjur námu 9,2 milljörðum króna. Afkoma grunnrekstrar var 4,9 milljarðar króna með 17,1% arðsemi eigin fjár fyrir skatta og innlán voru 53 prósent af heildarútlánum SPRON til viðskiptamanna. Þá kemur fram að innlánaaukning frá 2006 hafi numið 51 prósenti.

Niðurstaða efnahagsreiknings var 224,2 milljarðar króna í lok árs 2007 og hafa heildareignir hækkað um 22% frá 2006. Þá námu heildarútlán til viðskiptamanna SPRON 161,6 milljörðum króna í lok árs og hækkuðu um 26% frá árinu 2006.

Eigið fé SPRON í lok árs nam 27,8 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall (CAD) samstæðunnar í lok tímabilsins var 13,4%.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að lausafjárstaða sé sterk, engin stærri lán séu á gjalddaga fram til september 2009.

,,Grunnrekstur SPRON hefur styrkst á árinu og fara vaxta- og þóknanatekjur hækkandi," segir Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON. „Innlán hafa aukist um 51% og fjármagna bæði SPRON sparisjóður og Netbankinn sig alfarið með innlánum en fyrir samstæðuna í heild nema innlán 53% af heildarútlánum til viðskiptavina. Lausafjárstaða félagsins er sterk og aðeins eitt langtímalán er á gjalddaga árið 2008 fyrir um 20 milljónir evra sem hefur þegar verið fjármagnað."

Guðmundur segir að lækkun á verðmæti Exista hafi óveruleg áhrif á eiginfjárgrunn samstæðunnar. „Á árinu 2008 er ætlunin að vinna að frekari samþættingu í kjölfar þess vaxtar sem einkennt hefur reksturinn undanfarin ár. Um leið er ætlunin að draga úr kostnaði og hagræða í rekstri. Við erum því mjög vel í stakk búin til þess að mæta þeim erfiðu aðstæðum sem nú eru uppi á fjármálamörkuðum og nýta þau tækifæri sem munu skapast," segir Guðmundur Hauksson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×