Viðskipti innlent

Landic sækir á finnsk mið

Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Property.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Property.

Landic Property hyggst sækja fram og auka verulega við eignasafn sitt í Finnlandi. Sem lið í þeirri áætlun opnaði félagið skrifstofu í Helsinki þann 5. febrúar. Kristín Jóhannesdóttir stjórnarformaður félagsins opnaði nýja finnska heimasíðu, Landic Finland, í tilefni dagsins. Þar með er félagið með starfsstöðvar í fjórum Norðurlandanna. Höfuðstöðvarnar eru á Íslandi, en auk þess rekur félagið skrifstofur í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi og nú síðast í Helsinki.

Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri segir að Landic Property hafi nú þegar mjög sterka stöðu á markaði á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð og að fótfesta í Finnlandi sé mikilvægt skref í framtíðarsýn félagsins. „Finnski fasteignamarkaðurinn er sterkur, fellur vel að viðskiptamynstri félagsins og býður upp á eftirsóknarverð tæknifæri."

Landic Property er meðal allra stærstu fasteignafélaga á Norðurlöndum. Það á og rekur yfir fimm hundruð fasteignir sem eru samtals um 2,7 milljónir fermetrar að flatarmáli. Það er stærsta fasteignafélagið á Íslandi, og hefur mjög sterka stöðu í Danmörku og Svíþjóð. Félagið á 10 fasteignir í Finnlandi sem eru tæplega 50 þúsund fermetrar að flatarmáli. Langstærsti leigutakinn er Nordea bankinn.

Skarphéðinn segir að Landic Property eigi eftir að margfalda þá starfsemi sem nú er í Finnlandi og stórt skref í þá átt er opnun skrifstofunnar í Helsinki. „Verulegur uppgangur hefur verið í landinu á undanförnum árum og þar starfa mörg stór og öflug alþjóðleg fyrirtæki. Aðstæðurnar eru því ákjósanlegar fyrir framsækin fasteignafélög."

"Við stefnum á mikinn vöxt í Finnlandi fyrst í stað, en til lengri tíma litið er markmið félagsins að víkka kvíarnar enn frekar út í nálægum löndum," segir Skarphéðinn. „Landic Property ætlar að hasla sér völl sem eitt allra öflugasta fasteignafélagið í Norðurhluta Evrópu. Með því móti getur það boðið viðskiptavinum sínum upp á fjölbreytta þjónustu og auðveldað fyrirtækjum að byggja sig upp í fleiri en einu landi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×