Viðskipti innlent

Samtök fjárfesta undrast svör SPRON

SPRON
SPRON

Stjórn Samtaka fjárfesta undrast svör stjórnar SPRON um sölu stjórnarmanna á eignarhlutum. Í Fréttablaðinu birtust spurningar og svör stjórnar SPRON þann 29.janúar sl.

Þar kemur fram að SPRON hafi ekki verið heimilt að birta opinberlega upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna „þar sem það var talið geta valdið ruglingi við hlutabréfamarkaðinn."

Samtök fjárfesta undrast þetta svar SPRON sem vekur upp fleiri spurningar en það svar að mati samtakanna.

Ályktun stjórnar Samtaka fjárfesta má lesa í heild sinni hér að neðan:

Fréttablaðið birti 29. janúar sl. spurningar blaðsins og svör stjórnar SPRON um sölu stjórnarmanna á eignarhlutum í félaginu. Segir í svari stjórnar að um viðskipti með stofnfjárbréf stjórnarmanna og starfsmanna í SPRON hafi gilt ákveðnar reglur sem tóku mið af þeim meginreglum sem gilda um innherjaviðskipti hjá skráðum félögum á markaði.

Á þessu hafi þó verið sú undantekning að SPRON hafi ekki verið heimilt að birta opinberlega upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna „þar sem það var talið geta valdið ruglingi við hlutabréfamarkaðinn".

Stjórn samtaka fjárfesta lýsir undrun á ofangreindu svari stjórnar SPRON sem vekur fleiri spurningar en það svarar. Málið hefur almenna skírskotun vegna umfangsmikilla viðskipta með eignarhluti í óskráðum félögum fyrr og síðar.

Reglum um upplýsingaskyldu stjórnarmanna og annarra innherja er ætlað að tryggja þá meginforsendu í verðbréfaviðskiptum að aðilar standi jafnfætis og liggja þær hvarvetna til grundvallar viðskiptum með verðbréf.

Það varðar því markaðinn miklu að hafa upplýsingar um hvort stjórnarmenn og aðrir innherjar félags kaupa eða selja eignarhluti í félaginu á hverjum tíma. Ströng viðurlög liggja við því að brotið sé gegn reglum af þessu tagi.

Stjórn Samtaka fjárfesta beinir til stjórnar SPRON

• að hún skýri hvernig upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna geti „valdið ruglingi við hlutabréfamarkaðinn".

• að hún skýri hvernig slíkur „ruglingur" gæti valdið félaginu eða eigendum þess tjóni.

• að hún skýri efnislega hvaða hagsmunir félagsins og eigenda þess réttlæti grundvallarfrávik frá almennum reglum um upplýsingagjöf um viðskipti stjórnarmanna.

• að hún veiti tæmandi svör hvort einhverjir stjórnarmenn eða aðrir innherjar í félaginu hafi átt viðskipti með eignarhluti á síðasta ári og þá hverjir, hvenær og í hvaða mæli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×