Viðskipti innlent

„Við erum ekki í vandræðum“

Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista.
Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista.

„Það hafa gengið sögur um að félagið eigi í erfiðleikum með lausafé en eins og kom fram erum við með lausafé fram yfir mitt næsta ár og það getur hvaða fjármálastofnun sem er verið stolt af því," sagði Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag.

Lýður var spurður út í þær sögur sem hafa gengið um félagið og sagði hann þessar sögur vera kjaftasögur sem þeir hafi ákveðið að tjá sig ekki um fyrr en í dag, eftir að uppgjörið varð ljóst.

„Það hafa einnig gengið sögur um að eigið fé okkar sé uppurið sem er rangt en það er um 22 prósent eins og komið hefur fram. Í þriðja lagi hefur komið fram að við höfum neyðst til að selja okkar kjarneignir sem er rangt og einnig að Exista eigi í vandræðum, sem er líka rangt."

Lýður sagði að vissulega væri rétt að verðmæti hafi tapast í kjölfar lækkunnar félagsins og það væri leitt en þar með væri ekki öll sagan sögð.

„Menn verða nefnilega að skilja á milli þess að verðmæti hafi lækkað og að menn séu í vandræðum. Við erum ekki í vandræðum vegna þess að við bjuggum vel í haginn áður en það kom að markaðir lækkuðu."

Exista var nokkuð gagnrýnt fyrir uppgjörsaðferðir í níu mánaða uppgjöri félagsins þar sem óskráð félag í austur-evrópu var endurmetið en enginn veit hvaða félag það er. „Því miður er staðan ennþá sú að ég mun ekki upplýsa um þetta fyrirtæki hér og það er af samkeppnisástæðum," sagði Lýður.

Hann sagði félagið enn vera í eigu Exista en sagði jafnframt: „Það er svoleiðis með rekstur allra fyrirtækja hvort sem þau eru á markaði eða ekki að það eru alltaf einhverjir hlutir sem ekki er hægt að upplýsa markaðinn um. Hvort sem það er stöðutaka, upplýsingar um stöðutöku í félögum, fjármögnun eða viðskiptakjör."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×