Viðskipti innlent

Toppar Kaupþings hafa grætt á fjórða milljarð króna á kaupréttarsamningum

Forstjóri og stjórnarformaður Kaupþings hafa grætt 1,7 milljarða hvor á kaupréttarsamningi sem þeir gerðu árið 2004. Samningurinn var samþykktur á aðalfundi bankans.

Kaupþing seldi í vikunni þeim Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni, æðstu stjórnendum bankans, samtals 1,6 milljón hluta á genginu 303 sem er vel undir markaðsvirði en gengi bankans er nú 719. Seldu þeir bréfin í dag yrði hagnaður þeirra rúmar 600 milljónir.

Viðskiptin eru hluti af kaupréttarsamningi sem gerður var í ársbyrjun 2004 og gilti til fimm ára. Var það bankastjórn Kaupþings Búnaðarbanka, sem síðar varð Kaupþing, sem lagði til þetta ákvæði. Tillagan var borin undir aðalfund félagsins þann 27. mars árið 2004 þar sem allir hluthafar, stórir sem smáir, hafa atkvæðisrétt og var tillagan samþykkt.

Samningurinn veitti þeim rétt á kaupum á 812 þúsund hlutum árlega og eru þeir skuldbundnir til að halda bréfunum í þrjú ár. Samkvæmt samningnum skal tekið mið af markaðsgengi þann dag sem rétturinn stóð þeim fyrst til boða. Var gengið þann daginn 303 og hefur verið miðað við það gengi síðan en þegar aðalfundurinn fór fram var gengi bankans 308,5.

Eftir að samningurinn var undirritaður þaut gengi Kaupþings banka í hæstu hæðir og náði á tímabili nærri 1200 stigum.

Hafi þeir nýtt sér þennan rétt öll árin hafa þeir keypt samtals 4 milljónir og 60 þúsund hluti hvor á genginu 303. Hefur hvor um sig greitt fyrir þessa hluti rúman 1,2 milljarð króna. Þessir hlutir eru hins vegar metnir á 2,9 milljarða miðað við gengi bankans í dag.

Vitað er að þeir hafi nýtt sér hann að minnsta kosti fjórum sinnum - en hafi þeir nýtt hann öll fimm árin má segja að kaupréttarsamningarnir, sem hluthafar bankans samþykktu, hafi verið þeim Hreiðari og Sigurði ansi hagstæðir, því hvor um sig hefur þá grætt á þeim 1,7 milljarð króna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×