Viðskipti innlent

Kaupa Katarar hlut í Kaupþingi?

Forsvarsmenn Kaupþings eiga í viðræðum við fjárfesta í ríkjum við Persaflóa og á öðrum svæðum um hugsanleg kaup á hlut í bankanum. Þetta staðfesti Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag.

Hreiðar Már var spurður út í orðróm þess efnis að fjárfestar frá Katar hefðu áhuga á að verða stór hluthafi í Kaupþingi. Hann svaraði því til að fjárfestar frá því svæði hefðu verið að fjárfesta mikið í bönkum í Evrópu og Ameríku „og það væri örugglega mjög áhugavert fyrir okkur að fá inn fjárfesta frá þessu svæði inn í bankann."

Þegar Hreiðar var spurður út í fréttir af fundum stjórnarformanns Kaupþings, Sigurðar Einarssonar, með fjárfestum í Katar staðfesti Hreiðar að einhverjar viðræður ættu sér stað en tíminn yrði að leiða í ljós hvort viðræðurnar skiluðu einhverju. „Það væri ekki spurning að það myndi styrkja bankann okkar að fá inn nýja og öfluga fjárfesta."

Aðspurður sagði Hreiðar að um væri að ræða nokkra sjóði á vegum viðkomandi ríkja. Slíkir sjóðir hefðu komið inn í erlenda banka að undanförnu eins og Citigroup og Credit Suisse. Uppspretta auðs væri um þessar stundir í Miðausturlöndum og í Kína.

 

Hreiðar Már ræddi einnig afkomu bankans á liðnu ári en hann skilaði 70 milljarða króna hagnaði. Hann sagðist sáttur við niðurstöðuna en benti á að árið hefði verið kaflaskipt. „Fyrri helmingurinn var mjög góður en síðari helmingurinn var erfiðari enda breyttust markaðsaðstæður mjög til hins verra," segir Hreiðar Már.

Aðspurður hvort möguleiki sé á að íslensku bankarnir fari úr landi segir Hreiðar Már það vel geta komið til greina. Kaupþing sé hins vegar ekki að huga að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×