Viðskipti innlent

Stærstu bílaviðskipti Íslandssögunnar

Ragnar Sigþórsson, Þorsteinn Þorgeirsson, Björn Ragnarsson, Heiðar Sveinsson og Guðlaugur Andri Sigfússon kátir við undirritun samningsins.
Ragnar Sigþórsson, Þorsteinn Þorgeirsson, Björn Ragnarsson, Heiðar Sveinsson og Guðlaugur Andri Sigfússon kátir við undirritun samningsins.

Bílaleigan ALP sem er umboðsaðili AVIS og BUDGET á Íslandi hefur gengið frá samningum við bílaumboðin B&L og Ingvar Helgason (IH) um kaup á 900 nýjum bifreiðum að verðmæti tæplega 2 milljarða króna. Talið er að um sé að ræða stærstu bílakaup sem einn aðili hefur ráðist í á Íslandi.

Samtals 900 nýir bílar

ALP kaupir 440 nýja bíla frá B&L og eru þeir af gerðunum Hyundai, Renault og Land Rover. Fyrr í mánuðinum var gengið frá samningi við IH um kaup á 460 nýjum bílum af gerðunum Nissan, Subaru og Opel. ALP fær fyrstu bílana afhenta í apríl en búið verður að afhenda alla 900 bílana um miðjan júnímánuð í tæka tíð fyrir hápunkt ferðamannatímabilsins.

„Gáfum þeim góðan afslátt"

Það voru þeir Heiðar J. Sveinsson, forstöðumaður sölusviðs B&L og Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri ALP, sem handsöluðu kaupin sem að sögn Heiðars eru þau stærstu í sögu B&L. „Þetta er bæði mesta verðmæti eins einstaks sölusamnings og við höfum heldur aldrei selt einum aðila jafn marga bíla í einu. En þeir njóta þess líka í verðinu - við gáfum þeim alveg þokkalegan magnafslátt", segir Heiðar kankvís.

Bjartsýnn á ferðamannasumarið

Að sögn Björns líta menn björtum augum til þessa samstarfs við B&L enda er fyrirtækið með breitt vöruúrval og þekkt fyrir öflugt þjónustuverkstæði. „Fyrir bílaleigu eins og okkar þá skiptir mestu að missa bílana sem minnst úr rekstri. Lág bilanatíðni og hátt þjónustustig eru því lykilatriði. Jafnframt eru merkin mjög sterk sem B&L eru með og hafa reynst vel og við þurfum ekki að bera neinn kvíðboga gagnvart því að bjóða viðskiptavinum okkar þessa bíla til leigu, síður en svo," segir Björn sem er bjartsýnn á gott ferðamannasumar. „Ekki síst ef að gengi íslensku krónunar helst stöðugt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×