Viðskipti innlent

Bakkavör kaupir í Kína og Bandaríkjunum

Bakkavararbræður eru í stuði og hafa bætt tveimur fyrirtækjum í eignasafn sitt.
Bakkavararbræður eru í stuði og hafa bætt tveimur fyrirtækjum í eignasafn sitt. MYND/GVA

Bakkavör Group hefur bætt tveimur matvælafyrirtækjum í safn sitt. Annars vegar er um að ræða kínverska matvælafyrirtækið Yantai Longshun Foods sem sérhæfir sig í framleiðslu á grænmeti og ávöxtum, og hins vegar bandaríska fyrirtækið Two Chefs on a Roll, sem framleiðir fersk og frosin tilbúin matvæli.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands að kaupverðið sé trúnaðarmál en kaupin voru fjármögnuð meðláni frá Mizuho Corporate Bank. Segir Bakkavör að kaupin fjölgi viðskiptavinum félagsins í Kína, breikki vöruúrval félagsins auk þess sem félagið öðlast greiðari aðgang að fersku hágæðahráefni.

Longshun Foods var stofnað árið 2001 og er í borginni Lai Yang, um 120 kílómetra frá Quingdao. Yfir 240 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu. Longshun Foods verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins.

Tveir kokkar í stuði

Two Chefs on a Roll, sem útleggja mætti Tveir kokkar í stuði, var stofnað af matreiðslumönnunum Lori Daniel and Eliot Swartz árið 1985 sem lítið heildsölufyrirtæki með eftirrétti. „Í dag framleiðir fyrirtækið hins vegar fjölbreytt úrval ferskra og frosinna tilbúinna matvæla undir vörumerkjum viðskiptavina sinna og er með um 350 starfsmenn," að því er fram kemur í tilkynningu frá Bakkavör. Two Chefs on a Roll er staðsett í Carson, Los Angeles, en nýverið opnaði fyrirtækið einnig verksmiðju í Jessup í Pennsylvaníu. Velta félagsins á nýliðnu ári var 2,4 milljarðar króna (38,6 milljónir bandaríkjadala). „Kaupverðið er trúnaðarmál," segir í tilkynningu.

Forstjóri ráðinn í Bandaríkjunum

Fram kemur einnig að kaupin á fyrirtækinu séu fyrsta fjárfesting Bakkavarar í Bandaríkjunum, um langtímaverkefni sé að ræða sem muni krefjast talsverðra fjárfestinga á næstu misserum. „Til að styðja við sókn félagsins inn á bandarískan markað hefur Bakkavör Group stofnað nýtt dótturfélag, Bakkavör USA, og ráðið John Dutton sem forstjóra. John Dutton hefur yfirgripsmikla reynslu af rekstri framleiðslufyrirtækja á sviði ferskra tilbúinna matvæla eftir að hafa bæði byggt upp og stýrt fjölmörgum fyrirtækjum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu í yfir 25 ár.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×