Viðskipti innlent

Hlutir í Kaupþingi hækka um 7% í Svíþjóð

Frá því að kauphöllin í Svíþjóð opnaði í morgun hafa hlutabréf í Kaupþingi hækkað þar um 7%. Þetta kemur í kjölfar tilkynningarinnar um að hætt hafi verið við kaupin á hollenska bankanum NIBC.

Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Kaupþings, segir að þetta séu ánægjuleg viðbrögð við tilkynningunni. Það sé svo ekki síður ánægjulegt að við tíðindin lækkaði skuldabréfatrygging bankans um 125 púnkta í morgun.

Hvað sjálft málið varðar segir Jónas að Kaupþing hafi haft efni á því að kaupa NIBC. "Hinsvegar mátu báðir aðilar stöðuna sem svo að best væri að hætta við kaupin í ljósi þess óróa og óvissu sem ríkir nú á fjármálamörkuðunum. "segir Jónas.

Hann bendir á að meir en helmingur af kaupverðinu á NIBC hefði átt að borga með hlutum í Kaupþingi og því forgangsréttarútboði sem boðað var á fyrsta ársfjórðungi. "Því gátum við staðið við kaupin ef út í það var farið enda útboðið sölutryggt," segir Jónas.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×