Viðskipti innlent

Kaupþing hættir við kaupin á NIBC

Í ljósi þess óróleika sem nú er á fjármálamörkuðum hafa Kaupþing banki og NIBC ákveðið að falla frá fyrirhugaðari yfirtöku Kaupþings banka á NIBC.

Umsóknir um samþykki eftirlitsaðila vegna kaupanna hafa verið dregnar til baka og kaupsamningurinn felldur niður. Í ljósi þessarar þróunar verður ekki af forgangsréttarútboði Kaupþings, sem fyrirhugað var nú á fyrsta ársfjórðungi 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar nú í morgun.

Kaupverðið á hinum hollenska banka NIBC var tæpir 3 milljarðar evra, eða um 286 milljarðar kr. Því hefði verið um stærstu yfirtöku íslensks félags til þessa að ræða, það er í einu lagi.

Fréttir hafa verið í fjölmiðlum undanfarna daga um að Kaupþing hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til kaupanna vegna þeirra erfiðleika sem hrjáð hafa fjármálamarkaðinn undanfarna mánuði.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×