Viðskipti innlent

82 milljarðar í súginn hjá stjórnarmanni Exista

Robert Tchenguiz hefur átt litlu láni að fagna á mörkuðum að undanförnu.
Robert Tchenguiz hefur átt litlu láni að fagna á mörkuðum að undanförnu.

Robert Tchenguiz, stjórnarmaður í Exista, hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Breska blaðið The Guardian greindi frá því á dögunum að eignir hans og bróður hans Vincents í Englandi hefðu rýrnað um 72 milljarða frá því í byrjun nóvember á síðasta ári. Sé það ekki nóg þá hefur 5,09% hlutur hans í Exista rýrnað um 10 milljarða á sama tímabili.

Guardian greindi frá því í síðustu viku að eignir Roberts og bróður hans Vincents í Englandi hefðu rýrnað um rúma 72 milljarða á síðustu þremur mánuðum eða frá byrjun nóvember á síðasta ári. Vegur þar þyngst afleitt gengi þeirra þriggja félaga sem bræðurnir hafa lagt mestan pening í. Er um að ræða kráarkeðjuna Mitchells & Butlers, matvöruverslunarkeðjuna Sainsbury´s og tölvuleikjaframleiðslufyrirtækið SCi. Gengi bréfa í Mitchells & Butlers hefur fallið um 40% frá í nóvember, gengi bréfa í Sainsbury´s um 33% og gengi í SCi um 83%. Og ekki hefur íslensk fjárfesting Tchenguiz gengið betur því rúmlega 5% hlutur hans í Exista hefur rýrnað um tæpa tíu milljarða síðan í byrjun nóvember. Gengi Exista hefur fallið um 55,6% á þessum tíma.

Til að bæta gráu ofan á svart var tilkynnt í gær að Tchenguiz og breska kráarkeðjan Mitchells & Butlers, þyrftu að afskrifa 35 milljarða íslenskra króna vegna afleiðusamninga sem gerðir voru síðasta sumar.Tchenguiz, sem á 22% hlut í Mitchells & Butlers, og kráarkeðjan gerðu með sér samkomulag í júlí á síðasta ári sem fól í sér stofnun sameiginlegs fasteignafélags sem fasteignir Mitchells & Butlers. Í kjölfarið voru síðan gerðir tveir afleiðusamningar (sjá skýringu neðst í greininni*). Annar  treysti á að verðbólgan myndi lækka en hinn á að vextir myndu hækka. Vegna lítils framboðs á lánsfé, verðbólguhækkunar og vaxtalækkunar hefur breska kráarkeðjan hins vegar tilkynnt að ekkert verði af hinu sameiginlega fasteignafélagi hennar og Tchenguiz. Og því ekkert annað í stöðunni en að loka afleiðusamningnum og afskrifa 35,3 milljarða vegna þeirra.

Þrátt fyrir mótbyr undanfarinna mánaða greinir breska blaðið Evening Standard frá því að bræðurnir eigi þó enn til hnífs og skeiðar þar sem samanlagðir eignir þeirra séu metnar á 40 milljarða. Og Robert er ekki svo aðþrengdur að hann þurfi að selja lúxusnekkju sína sem liggur við festar í Mónakó. "Ég elska bátinn. Ég hef ekki í hyggju að selja hann. Ég hef tapað miklum peningum en er ekki í vandræðum," sagði Tchenguiz við blaðið þegar hann var spurður um fjárhagslega stöðu sína.

*Þegar rætt er um afleiðusamninga er átt við samning þar sem uppgjörsákvæði byggja á þróun ákveðinna þátta á borð við vaxta, gengis gjaldmiðla, gengi bréfa í tilteknu hlutafélagi, þróun ákveðinnar vísitölu eða verðs á hrávörum. Eins og gefur að skilja byggir því virði slíks samnings á þróun þeirra undirliggjandi þátta sem um ræðir frá samningsdegi til uppgjörsdags. Dæmi um afleiður eru framvirkir samningar, valréttur (kaup- og söluréttur), vaxtaskiptasamningar og staðlaðir framvirkir samningar. (heimild: mp.is)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×