Viðskipti innlent

Talið að FME birti umsögn um yfirtöku á NIBC fyrir uppgjör

Miklar líkur eru taldar á að Fjármálaeftirlitið birti umsögn sína um yfirtöku Kaupþings á hollenska bankanum NIBC áður en Kaupþing birtir uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung á fimmtudag. Án samþykkis mun þessi stærsti viðskiptasamningur Íslandssögunnar ekki ganga í gegn.

Eins og flestum mun vera ljóst þá hefur staðan á alþjóðlegum mörkuðum breyst mikið síðan kaupsamningur Kaupþings á NIBC var undirritaður. Efasemdir hafa verið um það hvort Kaupþing ráði við kaupin en skuldatryggingaálag Kaupþings, sem hefur margfaldast undanfarna mánuði, þykir bera vott um það.

Kaupþing hefur sagt að fjármögnun kaupanna sé í höfn en kaupverðið nam um þremur milljörðum evra, jafnvirði um 270 milljarða króna. Í breska blaðinu The Telegraph í gær kom fram að margir bankamenn telji að ef hafður í huga lánsfjárskorturinn sem herji á markaðina, hækkandi skuldatryggingaálag á bankana og áhyggjur af íslensks fjármálalífs séu kaupin á NIBC ekki eins ákjósanleg og talið var.

Þá hefur blaðið það eftir heimildarmönnum sínum hér á landi að Fjármálaeftirlitið hafi tafið kaupin og geti sett Kaupþingi þá afarkosti að annaðhvort hætti það við söluna eða afla meira fjár til að styrkja eiginfjárstöðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×