Viðskipti innlent

Stærsti gjalddagi krónubréfa er í dag

Síðasti og jafnfram stærsti gjalddagi krónubréfa janúarmánaðar er nú runninn upp en í dag gjaldfalla samtals 45 milljarðar kr. að viðbættum vöxtum. Um er að ræða útgáfu hins hollenska banka Rabobank.

Greining Glitnis fjallar um málið og í Morgunkorni hennar segir að alls gjaldféllu krónubréf að andvirði 65 milljarða kr. í janúar en ný krónubréf voru gefin út fyrir ríflega 59 milljarða kr. Þar af gaf Rabobank út 30 milljarða kr. í byrjun mánaðarins.

Í ljósi þess að gjalddögum mánaðarins var að langmestu leyti mætt með nýjum útgáfum er ólíklegt að þeir hafi haft merkjanleg áhrif á gengi krónu það sem af er mánaðar. Krónan hefur að vísu veikst um tæplega 5% frá áramótum en þar ræður mestu sú óvissa sem nú ríkir á mörkuðum, vaxandi áhættufælni fjárfesta og þrýstingur á hávaxtamyntir almennt.

Útistandandi krónubréf nema nú samtals 404,5 milljörðum kr., eða sem nemur rétt tæplega þriðjungi af áætlaðri landsframleiðslu síðasta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×