Viðskipti innlent

AppliCon kaupir sænskt ráðgjafarfyrirtæki

AppliCon AB í Svíþjóð, sem er í eigu Nýherja hf., skrifaði í dag undir samning um kaup á öllum hlutabréfum í sænska fyrirtækinu Marquardt & Partners AB. Kaupin eru í samræmi við þá stefnu AppliCon að útvíkka þjónustu sína á sviði hugbúnaðarlausna fyrir fjármálafyrirtæki í Norður-Evrópu.

Marquardt & Partners er þekkt ráðgjafarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni og sérhæfir sig í innleiðingu hugbúnaðar, ráðgjöf og þjónustu við fjármálafyrirtæki. Fyrirtækið var stofnað árið 1995 og er með aðsetur í Stokkhólmi. Þar starfa yfir 20 ráðgjafar með mikla reynslu og þekkingu á hugbúnaðarlausnum frá Calypso og SunGard Front Arena.

Marquardt & Partners er samstarfsaðili Calypso, sem er leiðandi framleiðandi á heimsvísu á sviði hugbúnaðar fyrir fjármálafyrirtæki.

AppliCon rekur skrifstofur í þremur löndum auk Íslands, í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð.

Kaupin á Marquardt & Partners styrkja starfsemi AppliCon til muna sem eitt öflugasta ráðgjafarfyrirtæki Norðurlanda á sviði upplýsingatæknilausna fyrir fjármálafyrirtæki. Með tilkomu Calypso hugbúnaðarlausna breikkar lausnaframboð AppliCon verulega. Hjá AppliCon fyrirtækjunum starfa eftir kaupin yfir 200 ráðgjafar með sérhæfingu í SAP og Microsoft hugbúnaðarlausnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×