Viðskipti innlent

Nova kærir Símann til Samkeppnisráðs

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, telur að Símanum sé ógnað af komu Nova inn á markaðinn og beiti þess vegna markaðsráðandi stöðu sinni.
Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, telur að Símanum sé ógnað af komu Nova inn á markaðinn og beiti þess vegna markaðsráðandi stöðu sinni.

Nova ehf. hefur lagt fram kæru til Samkeppniseftirlitsins á hendur Símanum hf. fyrir ólögmæta misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Tilefni kærunnar, sem byggir á 11.grein samkeppnislaga um bann við samkeppnishömlum, er hækkun Símans á verði á símtölum frá viðskiptavinum Símans í farsímakerfi Nova. Telur Nova að með því að hækka verð á símtölum til eins samkeppnisaðila brjóti Síminn samkeppnislög.

Verðhækkun Símans sem vísað er til í kærunni tók gildi 15. desember 2007 en Nova kom inn á íslenskan farsímamarkað tveimur vikum fyrr, þann 1. desember 2007. Telja forsvarsmenn Nova augljóst að áðurnefnd verðhækkun Símans, sem eingöngu snýr að símtölum í kerfi Nova en ekki annarra fyrirtækja, hafi verið gerð í því skyni að hindra samkeppni.

„Síminn telur sér augljóslega ógnað með innkomu Nova á markað og beitir markaðsráðandi stöðu sinni á ólögmætan hátt til að hindra nýja samkeppni. Farsímamarkaðurinn á Íslandi hefur einkennst af stöðnun og hárri verðlagninu en innkoma Nova er nú þegar farin að hafa áhrif," segir Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri Nova.

Nova telur brot Símans sérlega alvarlegt, ekki síst í ljósi þess að þegar Síminn tilkynnti um verðhækkun sína í farsímakerfi Nova þá lét Síminn í veðri vaka, í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum, að Nova ráði þeirri verðlagningu. Nova telur ástæðu til að árétta að Síminn ákvarðar sína verðlagningu og getur ekki skýlt sér á bak við samkeppnisaðila þegar fyrirtækið ákveður að hækka verð til eigin viðskiptavina og mismuna aðilum á markaði.

Nova hyggst stórauka samkeppni á farsímamarkaði og býður þjónustu og farsíma á lægra verði. Öll símtöl úr farsímum Nova innanlands kosta 15 krónur á mínútu, sama hvert hringt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×