Viðskipti innlent

Dögg Pálsdóttir segir of snemmt að fagna

Breki Logason skrifar
Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir

„Ég er mjög ánægð en bíð með að fagna þar til hæstiréttur hefur staðfest þessa niðurstöðu," segir Dögg Pálsdóttir varaþingmaður og hæstaréttarlögmaður um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur.

Innsetningarkröfu Saga Capital á hendur fyrirtæki Daggar og sonar hennar, Insolidum, var hafnað af héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stundu. Þar gerði fjárfestingarbankinn kröfu um að öllum hlutabréfum í fyrirtækinu yrði breytt og Saga Capital fengi full yfirráð yfir fyrirtækinu.

Dögg sem rétt hafði kíkt á dóminn þegar Vísir náði á hana sagði að svo virtist sem héraðsdómur hefði metið að innsetning ætti ekki við í svona tilvikum. Hún sagðist gera ráð fyrir að niðurstaðan yrði kærð enda sé málið umfangsmikið og flókið.

„Ég er nú bara rétt búinn að renna yfir rökstuðninginn og þar kemur fram að innsetningunni er hafnað af formsástæðum en ekki á grundvelli þeirra röksemda sem haldið var fram," sagði Gísli Guðni Hall lögmaður Saga Capital í samtali við Vísi.

Gísli sagðist annars lítið vilja tjá sig um niðurstöðuna enda ætti hann eftir að kynna sér málið betur. „Ég á samt von á því að þessi niðurstaða verði kærð til hæstaréttar."

Nú munu lögmenn Daggar og sonar hennar Páls Ágústs Ólafssonar fara í það að undirbúa mál þar sem farið verður fram á að riftun allra samninga verði staðfest. En Dögg og Páll Ágúst riftu samningum við fjárfestingarbankann á sínum tíma.

Það mál hefur ekki getað hafist fyrr en staðfest var að Insolidum væri enn í eigu Daggar og Páls Ágústs.

Sjá einnig:

Dögg vann í héraðsdómi

Saga Capital telur brot á reglum ekki skipta máli

Ásökunum um svik neitað

Stjórnarmaður í SPRON þvertekur fyrir ólögleg innherjaviðskipti

Banki vill fyrirtæki varaþingmanns vegna 320 milljóna króna skuldar

Varaþingmanni stefnt af Saga Capital






Fleiri fréttir

Sjá meira


×