Viðskipti innlent

Nær 100 milljarða kr. viðsnúningur til hins verra hjá FL Group

Samkvæmt meðalspá greiningardeilda bankanna um afkomu félaga í kauphöllinni á síðasta ársfjórðungi stefnir í 100 milljarða kr. viðsnúning til hins verra fyrir FL Group.

Fjallað er um spánna í Viðskiptablaðinu í dag. Hvað FL Group varðar er gert ráð fyrir tæplega 60 milljarða kr. tapi hjá félagnu á fjórða ársfjórðungi síðast árs. Á sama tímabili árið 2006 varð rúmlega 39 milljarða kr. hagnaður af starfsemi félagsins.

Af öðrum félögum sem spáð er miklu tapi samkvæmt meðalspánni er SPRON. Greiningardeilirnar reikna með að tapið hjá SPRON nemi rúmlega 6 milljörðum kr.

Aftur á móti er gert ráð fyrir að stóru bankarnir þrír skili allir hagnaði eftir fjórða ársfjórðung. Þannig gerir meðalspáin ráð fyrir að hagnaður Landsbankans nemi 5,8 milljörðum kr. hagnaður Glitnis nemi 6,5 milljörðum kr. og að Kaupþing verði 7,6 milljörðum réttu megin við strikið.

Ef afkoma allra félaga sem mynda úrvalsvísitöluna er tekin saman gerir meðalspáin ráð fyrir 46 milljarða króna tapi á fjórða ársfjórðung að því er segir í Viðskiptablaðinu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×