Viðskipti innlent

Óttast ekki gjaldþrot og útbreitt atvinnuleysi

Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri segist ekki óttast mikil gjaldþrot og útbreitt atvinnuleysi þrátt fyrir óróleika á fjármálamarkaði þessa dagana.

„Það er órói um allan heim og erfitt við þann óróa að etja. Hann er sérstaklega áberandi hjá okkur núna," sagði Eríkur í hádegisviðtalinu á Stöð 2. „Að sjálfsögðu horfum við á þessi mál. Við höfum áhyggjur af þessu verðfalli sem hefur verið á hlutabréfum," segir Eiríkur. Hann segir þó að bankinn muni ekki breyta þeim fyrirætlunum sem hafi verið gerðar um þróun vaxta. Næst verði vextir ákveðnir 14 febrúar, en áætlanir geri ráð fyrir að vextir fari að lækka undir lok ársins.

Sem kunnugt er hefur Seðlabankinn lagst gegn því að Kaupþing fái að gera upp í evrum. Eiríkur segir ástæðuna vera þá að megin viðskipti Kaupþings séu ekki í þeim gjaldmiðli. Kaupþing uppfylli því ekki lög til þess að gera upp í evrum. Auk þess segir hann eðlilegt velta því fyrir sér hvort sömu lög eigi að gilda um fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki. Hvort takmarkanir á að fjármálafryritæki færi sig yfir í erlendan gjaldmiðil eigi ekki að vera fleiri en takmarkanir á önnur fyrirtæki.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði á Alþingi í gær hvort Davíð Oddsson seðlabankastjóri gæti gefið hlutlæga umsögn um fyrirtækin Landic property og Kaupþing þegar forsagan væri höfð í huga. Hún velti því þannig fyrir sér hvort pólitík litaði afstöðu Seðlabankans. „Ég skal ekki segja hvort hans ferill í pólitík hefur áhrif á þessi mál en ég get bara fullyrt að við vinnum faglega í þessu máli og lakara ef Valgerður heldur að Davíð sé einn í Seðlabankanum," segir Eiríkur við þessum vangaveltum Valgerðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×