Viðskipti innlent

Seðlabankinn horfir ekki aðgerðalaus á hræringar á fjármálamarkaði

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að Seðlabankinn horfi ekki aðgerðarlaus á þær miklu hræringar sem nú eiga sér stað á fjármálamarkaði.

Seðlabankinn hefur legið undir töluverðri gagnrýni að undanförnu fyrir að bregðast ekki við miklum óróa á hlutabréfamarkaði. Frá áramótum hefur Úrvalsvísitialan lækkað um tæp 14 prósent og um rúm 20 prósent síðustu tólf mánuði. Hefur bankinn meðal annars verið gagnrýndur fyrir að lækka ekki stýrivexti.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að þessi gagnrýni eigi ekki rétt á sér. Bankinn hafi nú þegar gripið til mikilvægra aðerða. Bankinn hafi til að mynda breytt reglunum varðandi endurhverf verðbréfaviðskipti eins og svo séu kölluð sem geri það mögulegt að breyta skilgreiningunum á því hvað séu veðhæf skuldabréf. Það hjálpi bönkunum. Það sé mikilvægt í núverandi umhverfi.

Þannig sitji Seðlabankinn ekki aðgerðalaus og hann viti að menn þar á bæ fylgist vel með þeirri framþróun sem orðið hafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×