Viðskipti innlent

Ekkert lát á útgáfu krónubréfa

Lítið lát er á krónubréfaútgáfu og minnkar bilið milli heildarupphæðar nýrra útgáfa í janúar annars vegar, og bréfa á gjalddaga í mánuðinum hins vegar, hratt þessa dagana.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að í gær tilkynnti þýski þróunar- og fjárfestingabankinn KfW um 5 miljarða kr. útgáfu til átján mánaða. Þetta er í samræmi við þau ummæli stjórnanda hjá bankanum í Viðskiptablaðinu nýverið að hann hygðist halda áfram krónubréfaútgáfu meðan vextir hérlendis væru háir.

Auk þess tilkynnti Alþjóðabankinn um tvær litlar útgáfur uridashi-bréfa í morgun, samtals 845 milljónir kr. að nafnvirði. Samtals hefur bankinn þá gefið út uridashi-bréf í krónum fyrir tæplega 2,2 milljarða kr. og þótt ekki sé um ýkja háa upphæð að ræða er þessi nýi vaxtarbroddur í krónubréfaútgáfu áhugaverður.

Alls hafa verið gefin út ný krónubréf að nafnvirði ríflega 51 milljarða kr. í janúar, en í mánuðinum eru á gjalddaga krónubréf fyrir 65 milljarða kr. að nafnvirði, auk vaxtagreiðslna. Útlit er því fyrir að heildarupphæð útistandandi krónubréfa lækki lítt eða ekki í mánuðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×