Viðskipti innlent

Fyrstu Uridashi-skuldabréfin í krónum

Alþjóðabankinn tilkynnti í morgun um útgáfu svokallaðs uridashi-bréfs í krónum að nafnvirði ríflega 1,3 milljarðar kr., og er útgáfan til tveggja ára.

Uridashi eru skuldabréf sem gefin eru út fyrir smærri fjárfesta í Japan í erlendum gjaldmiðlum með svipuðum hætti og krónubréfin og önnur hávaxtabréf sem gefin eru út í Evrópu. Umsjónaraðili er japanska fjármálafyrirtækið Okasan Securities.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis og þar segir að eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta útgáfa uridashibréfa í krónum, en útgáfa í nýsjálenskum og áströlskum dölum hefur verið geysimikil á þessum markaði undanfarin ár.

 

Þekkt er að japanskir fjárfestar eru afar þolinmóðir og hafa langan sjóndeildarhring í sínum fjárfestingum. Auk þess er fjölbreytni og dreifing til ólíkra fjárfesta holl hverjum markaði. Því hlýtur að teljast jákvætt að krónubréfaútgáfa sé hafin á Japansmarkaði þótt í smáum stíl sé, og verður forvitnilegt að fylgjast með hvort fleiri útgáfur fylgja í kjölfarið á næstu vikum og mánuðum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×