Viðskipti innlent

Viðræður um yfirtökuna á Close Brothers hafnar

Viðræður Landsbankans og Cenkos Securities um yfirtöku á fjármálafyrirtækinu Close Brothers eru nú hafnar. Þetta kom fram í tilkynningu til kauphallarinnar í morgun.

Í tilkynningunni segir að fyrirhuguð viðskipti myndu auka enn frekar fjölbreytni efnahagsreiknings og tekna Landsbankans. Tekjur utan Íslands, sem nú nema 47%, myndu hækka upp í um það bil 60%.

Tekjur Landsbankans af viðskiptabankastarfsemi myndu aukast frá 17% og nema 33% af grunntekjum, samkvæmt skilgreiningu bankans.

 

Landsbankinn hefur þegar styrkt eiginfjárgrunn sinn með því að gefa út í október 2007 skuldabréf upp á 400 milljónir bandaríkjadollara sem telst til eiginfjárþáttar A og nýtur stuðnings stærsta hlutafa síns, Samson Holding, við að auka eigið fé bankans.

 

Bankastarfsemi Close Brothers plc er mjög vel fjármögnuð; innlán nema 117% af útlánum sem þýðir að lausafjárstaða félagsins er einstaklega sterk. Verði af fyrirhuguðum viðskiptum hefði það jákvæð áhrif á stöðu Landsbankans sem er þó sterk fyrir, þar sem innlán nema 76% af útlánum.

 

10. janúar 2008 átti Landsbankinn 8,9 milljarða evra í lausafé. Framundan er þægilegur endurgreiðsluferill hjá bankanum og eru langtímaskuldir sem falla á gjalddaga árið 2008 aðeins 0,8 milljarður evra.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×