Viðskipti innlent

Óvissuþættir í þjóðhagsspá fleiri en oft áður

MYND/GVA

Áætlað er að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið um 2,7 prósent sem er tveimur prósentustigum meira en gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins í haust. Ráðuneytið birtir í dag endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2007-2009 og segir óvissuþætti í henni nokkru fleiri en áður.

Fram kemur í spánni að flest bendi til þess að íslenska hagkerfið sé enn á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar eftir öflugt uppgangstímabil. Aðhaldssöm hagstjórn, lok yfirstandi stóriðjuframkvæmda, lækkun hlutabréfaverðs og minna framboð af ódýru erlendu lánsfé dragi úr innlendri eftirspurn og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum minnkar á spátímanum.

Þannig gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að óróleiki á alþjóðlegum og innlendum fjármálamarkaði gangi niður og að hagvöxtur í heiminum verði áfram mikill en nokkru minni en áður var talið m.a. vegna útlánatapa á fasteignamörkuðum.

Minni hagvöxtur á næsta ári en búist var við

Sem fyrr segir er áætlað að hagvöxtur hafi verið tveimur prósentustigum meiri í fyrra en gert var ráð fyrir. Það er vegna meiri einkaneyslu og minni samdráttar í fjárfestingu. Þá er gert ráð fyrir 1,4 prósenta hagvexti á yfirstandandi ári þrátt fyrir aukinn óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og lækkun hlutabréfaverðs. Hins vegar er búist við 0,4 prósenta hagvexti á árinu 2009, sem er einu og hálfu prósentustigi minna en í haustspá fjármálaráðuneytisins. Er þar gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu og fjárfestingar gefi eftir.

Fjármálaráðuneytið segir enn fremur að viðskiptahallinn á síðastliðinu ári verði tæp 13 prósent af landsframleiðslu, sem er minna en áður var gert ráð fyrir. Spáir ráðuneytið því að hallinn minnki hratt og verði 9,6 prósent árið 2008 og 6,8 prósent af landsframleiðslu árið 2009.

Enn fremur er atvinnuleysi er minna í ár en haustspá ráðuneytisins gerði ráð fyrir, eða 1,9 prósent af vinnuafli. Því er hins vegar spáð að það aukist í 3,6 prósent á næsta ári þegar framleiðsluslaki myndast í hagkerfinu. Um leið er spáð að verðbólga, sem var fimm prósent árið 2007, verði meiri í ár, eða 4,3 prósent, og að 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð á fyrra hluta næsta árs.

Halli á afkomu ríkissjóðs á næsta ári

Ráðuneytið spáir litlum halla á afkomu ríkissjóðs á næsta ári og áfram er miðað við að Seðlabankinn fylgi aðhaldsamri peningastjórn í ár, eða þar til skýr merki eru komin fram um meira jafnvægi í efnahagslífinu. Spáð er að gengi krónunnar gefi lítillega eftir á spátímabilinu.

Fjármálaráðuneytið segir óvissuþætti í spá sinni vera nokkru meiri en oft áður, þar á meðal vegna þróunar á fjármálamörkuðum, gengis krónunnar, kjarasamninga og frekari stóriðjuframkvæmda.

„Í því sambandi má nefna að fjármálakerfið á Íslandi er talið traust, staða ríkissjóðs sterk, starfsemi fyrirtækja mikil og atvinnustig hátt. Íslenska hagkerfið hefur sýnt eindæma viðnámsþrótt þegar aðstæður ámörkuðum hafa skyndilega breyst en sá árangur er rakinn til aukinnar skilvirkni og sveigjanleika þess," segir í tilkynninu ráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×