Viðskipti innlent

Dagvöruverslun jókst um 8,6% í desember

Velta í dagvöruverslun jókst um 8,6% í desember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að á milli mánaðanna nóvember og desember jókst velta dagvöruverslunar um 33,5%. Vöxtur í jólaverslun með dagvöru var álíka mikill og hann hefur verið að jafnaði undanfarin fimm ár.

En vert er að hafa í huga að töluverð verðlækkun varð á þessum vörum 1. mars s.l. vegna lækkunar á virðisaukaskatti og afnámi vörugjalda. Velta í dagvöru allt árið 2007 var 10,4% meiri en árið áður á breytilegu verðlagi.

Í fataverslun jókst veltan um 92,8% í desember miðað við nóvember þar á undan og velta skóverslunar jókst um 65% á milli þessara mánaða. Mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fata- og skóverslunar hófust í janúar 2007 og því er ekki til samanburður á þessum tegundum verslunar frá desember 2006.

Sala áfengis jókst um 4,0% í desember miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi og 2,4% á föstu verðlagi. Aukning í áfengissölu milli nóvember og desember var 60% á breytilegu verðlagi og 60,5% á föstu verðlagi. Þetta er mun minni söluaukning á milli ára en sést hefur undanfarin ár. Í fyrra nam söluaukning áfengis milli ára 9,6%.

Í desember jókst velta í húsgagnaverslun um 9,3% á breytilegu verðlagi miðað við mánuðinn á undan og um 9,7% á föstu verðlagi. Í nóvember nam veltuaukning í húsgagnaverslun 19,2% frá mánuðinum þar á undan og því ljóst að jólaverslun með húsgögn hefur verið nokkuð lífleg tvo síðustu mánuði ársins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×