Viðskipti innlent

Glitnir endurskoðar spá um neysluverðsvísitölu

MYND/Heiða

Greiningardeild Glitnis spáiir því að neysluverðsvísitalan hækki um 0,2 prósent á milli desember og janúar sem er hærra en bankinn spáði skömmu fyrir jól.

Hagstofan birtir nýja vísitölu á mánudaginn kemur og Morgunkorni Glitnis kemur fram að greiningardeildin hafi spáð 0,1 prósenta hækkun á vísitölunni fyrir áramót. Mikill verðbólguþrýstingur sé hins vegar til skamms tíma þrátt fyrir að flest bendi til að verðhækkun húsnæðis verði hverfandi næstu mánuði.

Útlit sé fyrir hækkanir á matvöru, bæði vegna mikillar hækkunar matvöruverðs á heimsmarkaði og vegna hækkunar launa. Bent er á að vísitala matvöruverðs hafi hækkað um fimm prósent að meðaltali í Evrópusambandinu og matvöruverðbólga í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku sé yfir 5 prósent en aðeins 3 prósent hér á landi, sé gróflega leiðrétt fyrir skattalækkun á matvöru á síðasta ári.

Þá bendir greining Glitnis á að gengi krónunnar hafi lækkað nokkuð undanfarna mánuði sem einnig skapi verðbólguþrýsting til skamms tíma og því megi búast við áhrifum þess í janúar, meðal annars í verði á nýjum bílum. Verðskrárhækkanir hafi líka ávallt töluverð áhrif til hækkunar á verðlagi í janúar en á móti komi að útsölur hafi talsvert sterk áhrif á neysluverðsvísitöluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×