Viðskipti erlent

Blair í hlutastarf hjá JP Morgan

MYND/Reuters

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur verið ráðinn til bandaríska bankans JP Morgan sem ráðgjafi í hlutastarfi.

Eftir því sem breska blaðið Finacial Times greinir frá mun Blair veita bankanum ráðgjöf á sviði stjórnmála og áætlanagerðar og taka þátt í viðburðum sem bankinn skipuleggur fyrir viðskiptavini sína.

Ekki liggur fyrir hversu mikið Blair fær í laun fyrir starfið en Finacial Times hefur eftir ráðningarþjónustu í New York að þau væru líklega yfir einni milljón dollara eða rúmar 60 milljónir króna á ári. „Það eru aðeins nokkrir menn í heiminum sem hafa þá þekkingu og þau sambönd sem hann hefur," segir Jamie Dimon, stjórnarformaður JP Morgan.

Sjálfur segir Blair í samtali við Finacial Times að hann hafi alltaf haft áhuga á viðskiptum og alþjóðavæðingu. Hann býst við að taka að sér fleiri slík verkefni fyrir önnur fyrirtæki en hann gegnir einnig sendifulltrúa í málefnum Miðausturlanda.

Það er ekki óalgengt að fyrrverandi stjórnmálamenn á alþjóðavettvangi gerist ráðgjafar fyrir stór fyrirtæki en bæði forveri Blairs í embætti, John Major, og George Bush eldri voru til að mynda ráðgjafar bandaríska félagsins Carlyle.

Þá hafa stjórnmálamenn oft töluvert upp úr því að ferðast um og halda ræður og segir Financial Times að Blair hafi fengið 500 þúsund dollara, um 30 milljónir króna, fyrir að halda ræðu í Kína í haust.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×