Viðskipti innlent

Fyrirtæki á heilsuvörumarkaði sameinast

Nokkur fyrirtæki á heilsuvörumarkaði hafa verið sameinuð í einu fyrirtæki sem enn hefur ekki fengið nafn. Þetta eru félögin Maður lifandi, Himnesk hollusta, Biovörur og Grænn kostur.

Fram kemur í tilkynningu frá eigendum félaganna að markmið sameiningarinnar sé að búa til öflugt fyrirtæki sem á að byggja á þeirri sýn að hollt mataræði stuðli að heilbrigði og auki lífsgæði.

Bent er á að tíðni lífsstílssjúkdóma og margvíslegs ofnæmis hefur margfaldast í samfélaginu, vinnutími fólks lengst og starfstengt álag aukist. Á sama tíma leggja æ fleiri áherslu á bætta heilsu og gera um leið kröfu til þess að geta matreitt fljótt og auðveldlega heilsusamlegan mat fyrir alla fjölskylduna á sanngjörnu verði.

Meðal eigenda fyrirtækisins eru Sólveig Eiríksdóttir, einnig þekkt sem Solla á Grænum kosti, Elías Guðmundsson, Hjördís Árberg auk Salt Investments, fjárfestingarfélagi Róberts Wessmans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×