Viðskipti innlent

Stærstu fyrirtækjakaup Nordic Partners til þessa

Fjárfestingarfélagið Nordic Partners ehf. hefur undirritað samninga um kaup á matvælafyrirtækinu Hamé a.s. sem eru stærstu einstöku fyrirtækjakaup Nordic Partners til þessa.

Velta Hamé 2007 nam 17 milljörðum króna sem skipar Hamé á bekk með stærstu matvælafyrirtækjum í mið og austur Evrópu. Helstu framleiðsluvörur Hamé eru unnar kjötvörur, tilbúnar máltíðir, samlokur, barnamatur, tómatvörur, sósur og grænmeti.

Starfsmenn Hamé eru um 3.000 talsins. Fyrir var samsteypan með sterka framleiðslu á sælgæti, kexi, kökum, samlokum, tilbúnum matvælum auk drykkjarvöruframleiðslu, s.s. vatni, safa og gosdrykkjum.

 

Samningur um kaup á öllu hlutafé Hamé a.s. var undirritaður með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og samþykki kaupanda á endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 2007.

 

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi kaupanda, KPMG í Tékklandi annaðist áreiðanleikakönnun og Peterka Partners veitti lögfræðilega ráðgjöf við kaupin.

 

 

Nordic Partners reka nú þegar margvíslega matvælastarfsemi í Lettlandi, Litháen og Póllandi sem verður nú sameinuð undir merkjum Hamé. Velta sameinaðrar starfsemi er áætluð um 40 milljarðar króna á árinu 2008. Framleidd verða nálægt 170.000 tonn af unnum matvælum og ríflega 100 milljón lítrar af drykkjavöru. Miklir vaxtamöguleikar einkenna öll svið framleiðslunnar.

 

"Kaupin á Hamé a.s. eru í takt við stefnu Nordic Partners um ytri vöxt matvælastarfseminnar, en hin síðustu ár hafa miklar fjárfestinar verið gerðar til að styrkja innri vöxt fyrirtækjana," segir Gísli Reynisson, forstjóri Nordic Partners.

"Rekstrareiningar matvælasamsteypunnar eru reknar með góðum hagnaði og gert er ráð fyrir verulegri veltu- og hagnaðaraukningu á næstu misserum. Fjárhagslegur styrkur er mikill og eru uppi áform um að styrkja og stækka þessa öflugu einingu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×