Viðskipti innlent

Vill læknadeild í HR

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, vill opna læknadeild við Háskólann í Reykjavík. Þetta kom fram í hádegisviðtali Markaðarins á Stöð 2 í dag. Róbert lét einn milljarð króna renna í sjóð til Háskólans í Reykjavík á síðasta ári.

„Þetta eru 200 milljónir í hlutafé og 800 milljónir í sjóð sem fer í að byggja upp skólann. Hugsunin er sú að þessar átta hundruð milljónir fari í það að byggja upp skólann til framtíðar og þessar 200 milljónir voru hugsaðar sem hlutafé til að geta komið aðeins að skólanum," segir Róbert Wessman, sem hefur áhuga á að koma að stjórn skólans og gera hann að einum þeim besta í Evrópu.

Þá sagði Róbert að hann hyggist fara fram á stjórnarsæti í Glitni banka, en Salt Investments, sem er í eigu Róberts keypti nýlega 2% hlut í bankanum. Róbert býst við að fá sætið á næsta aðalfundi.

Þá hefur Salt Investments einnig keypt 33% hlut í Latabæ og jafnframt eignast Grænan kost og Himneska hollustu. Róbert hyggst á næstunni byggja upp fyrirtæki á sviði heilsutengdrar þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×