Viðskipti innlent

Rabobank gefur út 30 milljarða kr. krónubréf

Í morgun tilkynnti hollenski bankinn Rabobank um útgáfu krónubréfs að nafnvirði 30 milljarða kr. Bréfið er til 1 árs og ber 14% vexti.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis og þar segir að ljóst virðist að hér er um að ræða framlengingu á stórum hluta af 45 milljarða kr. útgáfu Rabobank í janúar í fyrra sem er á gjalddaga í þessum mánuði.

Greiðsludagur nýju útgáfunnar er 28. janúar, sami dagur og gjalddagi fyrri útgáfunnar, og sami umsjónaraðili, TD Securities, kemur að báðum útgáfunum.

Íslenska krónan hefur styrkst um 0,6% það sem af er degi eftir nokkra styrkingu í gær. Útgáfan nú er sú fyrsta síðan 21. nóvember í fyrra og verður fróðlegt að fylgjast með hvort öllum krónubréfum á gjalddaga í janúar, alls 65 mö.kr. auk vaxta, verður mætt með nýjum útgáfum eða jafnvel gott betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×