Körfubolti

Keflavík tapaði sínum fyrsta leik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Víkurfréttir/Jón Björn

Keflavík, topplið Iceland Express deildar karla, þurfti að játa sig sigrað í stórleiknum gegn Grindavík í kvöld. Heimamenn í Grindavík unnu 98-76 en þeir voru betri á flestum sviðum körfuboltans.

Grindavík fór vel af stað og hafði fimmtán stiga forystu í hálfleik. Liðið lét síðan forystuna aldrei af hendi í seinni hálfleiknum og spilaði sterka vörn. Þetta var fyrsti tapleikur Keflavíkur á tímbilinu.

Anthony Griffin var besti maður vallarins en hann gerði 35 stig fyrir Grindavík. Adam Darboe var með sextán. Hjá Keflavík skoraði Anthony Susnjara mest eða fjórtán stig.

Spennan í deildinni jókst enn frekar eftir þessi úrslit. Keflavík er með tuttugu stig í efsta sætinu, KR kemur þar á eftir með átján stig og loks er Grindavík í þriðja sæti með sextán stig.

Annar leikur fór fram í deildinni í kvöld. Snæfell vann Þór Akureyri 93-63. Með sigrinum komst Snæfell upp í tíu stig í deildinni en fyrir leikinn voru bæði lið með átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×