Körfubolti

Stórleikur í Grindavík í kvöld

Mynd/Víkurfréttir

Það verður sannkallaður stórleikur í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld þegar grannarnir Grindavík og Keflavík eigast við í Röstinni í Grindavík. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn og hefst klukkan 20.

Keflvíkingar verma topsætið í deildinni og hafa enn ekki tapað leik í vetur. Liðið hefur unnið tíu fyrstu leiki sína og er aðeins annað liðið til að ná þeim frábæra árangri miðað við núverandi keppnisfyrirkomulag. Það var Grindavík sem afrekaði það áður leiktíðina 2003-04.

Þá tapaði Grindavíkurliðið fyrsta leik sínum á leiktíðinni þann 4. janúar gegn Njarðvík og þá var það einmitt Friðrik Ragnarsson sem stýrði liði Njarðvíkur, en hann þjálfar Grindavík í dag.

Grindvíkingar fóru vel af stað í deildinni í haust en hafa nú tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum. Grindavík og Keflavík mættust í Keflavík í október sl. en þar unnu Keflvíkingar öruggan sigur á heimavelli sínum.

Bestu byrjun í sögu úrvalsdeildarinnar eiga Njarðvíkingar, en þeir unnu 14 fyrstu leiki sína leiktíðina 1988-89.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×