Viðskipti innlent

Bjarni Ármansson stjórnarformaður REI enn um sinn

MYND/GVA

Bjarni Ármannsson situr áfram sem stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest þar til ný stjórn tekur við en það mun skýrast á næstunni hverjir sitja í henni.

Eins og kunnugt er ákvað nýr meirihluti í borginni að hverfa frá samruna REI og Geysis Green Energy og fljótlega í kjölfarið var ákveðið að REI keypti aftur hlut Bjarna Ármanssonar og Jóns Diðriks Jónssonar í félaginu og að Bjarni hætti sem stjórnarformaður um áramótin.

Að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur, stjórnarformans Orkuveitunnar, hefur ekki verið ákveðið hverjir taka sæti í stjórn REI í kjölfar breytinganna en auk Bjarna hafa þau Páll Erland og Anna Skúladóttir setið í stjórninni. Ákveðið var þegar REI og Geysir Green sameinuðust að fimm menn yrðu í stjórn félagsins en nú hefur verið ákveðið að þeir að þrír muni sitja í nýrri stjórn REI.

Bryndís segir nýskipan í stjórn munu hanga saman með því hvernig REI komi til með að líta út til framtíðar, en sú vinna sé enn í gangi. Aðspurð segir hún að engin ákvörðun hafi verið tekin um að hætta útrás. „Nýr meirihluti hefur þvert á móti sagt að haldið verði áfram en verkefnið er að finna útrásinni farveg sem er traustur," segir Bryndís og bendir á að fyrri farvegur útrásarinnar hafi byggst á göllum á málsmeðferðinni.

Bryndísi var falið fyrir hönd stjórnar Orkuveitunnar að finna niðurstöðu í málum REI og Geysis Green í kjölfar þess að ákveðið var að falla frá samrunanum af hálfu Orkuveitunnar. Hún segir að þeim viðræðum sé ekki lokið.

Inn í þá mynd komi sú ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að selja allt að 95 prósent hlutar síns í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur. „Það eru sett ákveðin skilyrði í þeirra samþykktum sem við eigum eftir að ræða um," segir Bryndís og vísar meðal annars til þess að Hafnfirðingar vilji eignast hlut í Orkuveitunni. Viðræður milli Orkuveitunnar og Hafnarfjarðarbæjar vegna málsins eru ekki hafnar en Bryndís reiknar með að fyrsti fundurinn verði haldinn á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×