Viðskipti innlent

Ekki ástæða til að óttast gjaldfellingu krónubréfa

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis segir að ekki sé ástæða til að óttast gjaldfellingu krónubréfa nú eftir áramótin. Í þessum mánuði koma krónubréf að upphæð um 200 milljarða króna á gjalddaga. Um er að ræða stærsta gjalddaga þeirra frá upphafi.

Á síðasta ári var yfirleitt um að ræða að krónubréfum var framlengt í stað þess að innleysa þau. Ingólfur Bender segir að reikna megi með því að eitthvað minna verði um framlengingu á bréfunum nú vegna þeirra stöðu sem komin er upp á alþjóðamörkuðum.

"Það er samt ekki ástæða til að óttast gjaldfellingu á allri uphæðinni," segir Ingólfur. "Markaðurinn hér veit vel af þessu og hefur væntanlega gert ráðstafanir."

Ingólfur nefnir einnig að enn ríki bjartsýni um stöðu krónunnar og að vaxtamunurinn sé enn það mikill að krónubréfin eru álitlegur fjárfestingarkostur. Hann eigi því síður en svo von á að öll fyrrgreind upphæð verði gjaldfelld, eða innleyst.

"Það er hinsvegar töluverð óvissa í spilunum um nýjar útgáfur á krónubréfum," segir Ingólfur. "Eins og staðan er í dag má búast við að nýjar útgáfur verði minni en var á síðasta ári."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×