Viðskipti innlent

Greining Glitnis spáir 3% lækkun íbúðaverðs í ár

Greining Glitnis spáir því að íbúðaverð muni lækka um 3% yfir þetta ár.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að draga muni úr eftirspurn á íbúðamarkaði á komandi ársfjórðungum vegna hægari gangs hagkerfisins í kjölfar takmarkaðs aðgengis að lánsfé og lítillar kaupmáttaraukningar ráðstöfunartekna.

Þá gerir greiningin ráð fyrir að hægi á fólksfjölgun í landinu samhliða minnkandi spennu á vinnumarkaði, en mikill aðflutningur erlends vinnuafls til landsins hefur aukið eftirspurn á íbúðamarkaði. Framboð nýs húsnæðis er mikið eftir mikla íbúðafjárfestingu á nýliðnum árum.

Væntingar um þróun íbúðamarkaðarins og lakari fjármögnunarskilyrði munu hægja á framboðsaukningu nýs húsnæðis á árinu. Þá hefur byggingarkostnaður hækkað hraðar en íbúðaverð á undanförnum mánuðum sem er til þess fallið að draga úr íbúðafjárfestingu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×