Viðskipti erlent

British Gas hækkar verðið á ný

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Pjetur Sigurðsson

Bretar sem kynda heimili sín með gasi sjá nú fram á aðra hækkun gasreikningsins á árinu en Centrica, sem á og rekur British Gas, berst nú í bökkum vegna hækkunar á heildsöluverði.

Hækkunin sem skall á breskum heimilum í janúar var 15% og segir fyrirtækið nú í yfirlýsingu að ekkert minna en önnur hækkun dugi þar sem „hagnaður fyrri hluta ársins var undir því sem langtímaspár okkar gerðu ráð fyrir."

Viðskiptavinum British Gas hefur fækkað um 100.000 síðan það hækkaði verðið í janúar. Eru nú 15,9 milljónir í viðskiptum við fyrirtækið en sú tala var 17,7 milljónir í ársbyrjun 2005. „Á meðan gasverðlagið setur orkuveitum stólinn fyrir dyrnar erum við knúin til að grípa til þeirra ráða sem á þarf að halda til að tryggja lágmarksafkomu á vettvangi smásölu," segja talsmenn British Gas.

Times Online greindi frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×