Innlent

Hætti við hælisumsókn þegar vegabréf hans fannst undir rúmdýnu

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
MYND/Víkurfréttir
Tveir útlendinganna fimm sem eru í haldi lögreglu á Suðurnesjum hafa verið ákærðir og mæta fyrir dóm í dag. Mennirnir eru frá Indlandi og Angóla. Þeir framvísuðu báðir fölsuðum vegabréfum í Leifsstöð í síðustu viku þar sem þeir höfðu viðkomu á leið sinni til Kanada. Báðir hafa játað sök og segir Alda Jóhannsdóttir lögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum að þeir muni að öllum líkindum hefja afplánun á 30 daga dómi í dag. Að því loknu er þeim vísað úr landi.

Indverjinn sótti upprunalega um pólitískt hæli hér á landi. Eftir að lögregla fann raunverulegt vegabréf hans undir rúmdýnu í herbergi hans á Fitjum dró hann umsókn sína um hæli til baka og vildi fara úr landi.

Hinir þrír eru frá Pakistan, Erítreu og Súrínam. Pakistaninn sótti strax um pólitískt hæli og er mál hans til meðferðar. Byrjað var að ræða við Erítreumanninn og Súrínamann í dag. Talið er að annar þeirra sé fylgdarmaður hins og segir Alda að í slíkum tilfellum sé kannað hvort um mansal sé að ræða.

Alda segir að óvenjulega margir hafi framvísað fölsuðum vegabréfum, eða vegabréfum sem tilheyra einstaklingum líkum þeim, undanfarið. Fjölgunina segir hún líklegt að megi rekja til þess að nú er flogið til Kanada frá Íslandi, en hlutfall hælisleitenda sem hlýtur um pólitískt hæli þar er töluvert hærra en í flestum öðrum löndum.




Tengdar fréttir

Fimm stöðvaðir með fölsuð vegabréf í Leifsstöð

Fimm útlendingar eru nú í haldi lögreglu á Suðurnesjum eftir að hafa framvísað fölsuðum vegabréfum í Leifsstöð. Fólkið á það allt sammerkt að hafa verið á leið til Kanada og hefur það verið stöðvað í síðastliðinni viku. Eyjólfur Kristjánsson, hjá lögreglunni á Suðurnesjum segist halda að um tilviljun sé að ræða að svo margir séu teknir á leiðinni til Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×