Viðskipti innlent

Bandaríkjamenn vilja kaupa Glitni í Noregi

 Lárus Welding viðtakandi og Bjarni Ármannsson, fráfarandi forstjóri Glitnis, í kveðjuhófi sem haldið var fyrir Bjarna í bankanum í júlí í fyrra. Fréttablaðið/Daníel
Lárus Welding viðtakandi og Bjarni Ármannsson, fráfarandi forstjóri Glitnis, í kveðjuhófi sem haldið var fyrir Bjarna í bankanum í júlí í fyrra. Fréttablaðið/Daníel
Glitnir gæti selt starfsemi sína í Noregi á 40 til 50 milljarða króna. Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Paine & Partners hefur sýnt áhuga á kaupunum. Kaupverð hlutar ríkisins í Glitni nam um 84 milljörðum króna. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Bjarni Ármannsson haft milligöngu í þreifingum um kaupin.

Til athugunar hafa verið möguleg kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins Paine & Partners á starfsemi Glitnis í Noregi. Samkvæmt heimildum Markaðarins gæti mögulegt söluvirði starfseminnar verið á bilinu 40 til 50 milljarðar króna.

Í apríl síðastliðnum gengu til liðs við Paine & Partners Bjarni Ármannsson og Frank Ove Reite, sem báðir voru áður á mála hjá Glitni sem forstjóri og framkvæmdastjóri.

Hjá Paine & Partners kjósa menn að tjá sig ekki um viðræðurnar.

Samkvæmt heimildum Markaðarins standa viðræður enn en verði af sölunni til Paine & Partners er þó frekar búist við að salan gangi hratt fyrir sig.

Viðræðurnar hófust núna um helgina þegar ljóst var orðið að af hálfu stjórnvalda væri lögð mikil áhersla á að íslensku bankarnir léttu á erlendum eignum sínum. Með sölu á Noregshluta starfsemi Glitnis myndi íslenska ríkið létta verulega á skuldbindingum sínum gagnvart bankanum, en á mánudaginn fyrir viku var tilkynnt um kaup ríkisins á 75 prósenta hlut í bankanum fyrir sem nemur 84 milljörðum króna.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur Bjarni Ármannsson haft milligöngu um viðræðurnar, en óvíst er um frekari aðkomu hans að kaupnum. Þó mun ekki útlokað að Paine & Partners geri kröfu um að hann taki einhvern þátt í þeim. Bjarni og Frank O. Reite stýra fjárfestingum sjóðsins í Norður-Evrópu. Þegar þeir gengu til liðs við sjóðinn í apríl upplýsti Bjarni að Paine & Partners væri bakland og farvegur fyrir stærri fjárfestingar en fjárfest væri úr sjóði sem næmi tæpum 90 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×