Viðskipti innlent

Fasteignaverð hélt áfram að lækka í október

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,2% í október frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 348,7 stig en hún mælir vegið meðaltal fermetraverðs íbúðarhúsnæðis. Það sem af er ári hefur íbúðaverð lækkað um 1% að nafnvirði samkvæmt mælingum Fasteignamats ríkisins.

Vegna mikillar verðbólgu á sama tímabili er raunverðslækkun íbúðaverðs mun meiri eða rúmlega 13%. Síðustu tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu nú lækkað um 2,4% að nafnvirði og er það í fyrsta sinn síðan í apríl 2002 að tólf mánaða taktur húsnæðisverð er neikvæður.

Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur á þessum tíma lækkað um 18,3%. Í byrjun þessa árs nam tólf mánaða hækkun nafnverðs húsnæðis 14% og raunverðshækkun 8,2%. Enn stendur nokkuð eftir af raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis á árunum 2006-2007 en á þeim tíma hækkaði raunverð íbúðarhúsnæðis um tæplega 24%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×