Viðskipti innlent

Stjórn Marel ákveður að fara í lokað hlutafjárútboð

Stórn Marels ákvað á stjórnarfundi í dag að bjóða 20-30 milljónir hluta í lokuðu hlutafjárútboði til hæfra fjárfesta til að styrkja enn frekar fjárhag félagsins og auka viðskipti með hlutabréf þess.

Verð nýju hlutanna verður á bilinu 70 til 72 krónur á hlut en síðustu viðskipti með bréf félagsins voru á genginu 71,7 krónur á hlut.

Í tilkynningu um útboðið segir að Nýi Landsbanki Íslands hf. mun taka við áskriftum frá kl. 11:00 í dag, og til kl. 16.00 þann 16. október 2008. Marel mun, í samráði við Nýja Landsbanka Íslands hf., úthluta nýjum hlutum og áskilur sér rétt til þess að hafna einstökum áskriftum, að hluta til eða öllu leyti.

Stjórn Marel mun nýta heimild til hlutafjárhækkunar sem veitt var á aðalfundi félagsins 7. mars 2008, þar sem hluthafar félagsins féllu frá forgangsrétti að hinum nýju hlutum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×