Viðskipti innlent

Segir fimbulvetur framundan í byggingariðnaðinum

Fjármálakreppan virðist ætla að leggjast sérstaklega þungt á byggingariðnaðinn. Fréttir af fjöldauppsögnum úr þeim geira hagkerfisins berast nú nánast daglega. Greining Glitnis fjallar um málið og segir fimbulvetur framundan í byggingariðnaðinum.

 

Fastlega má búast við að á bilinu 300- 400 manns í byggingariðnaðinum hafi fengið uppsagnarbréf í þessum mánuði. Mikill svartsýni ríkir nú í þeirri grein og skyldum greinum og búist er við að fleiri muni missa vinnuna á næstu mánuðum.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að íbúðamarkaðurinn er nær algjörlega frosinn og ólíklegt er að mikill eftirspurn verði eftir nýjum íbúðum á næstunni. Verulega hefur einnig hægst á framkvæmdum við atvinnuhúsnæði en lánaframboð til slíkra verkefna er afar takmarkað.

 

Þau verkefni sem helst virðast vera framundan virðast því vera á vegum hins opinbera. Óvissa ríkir einnig um þau þar sem fyrirséð er að ríkisjóður verði rekinn með miklum halla á næstu árum sem minnkar svigrúm til opinberra framkvæmda til muna.

Þessi þróun hefur verið fyrirferðamikill í íbúðarhúsnæði. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði nam um það bil 3-4% af landsframleiðslu (VLF) frá 1980 og allt fram á miðjan níunda áratuginn. Þá byrjaði fjárfesting í íbúðarhúsnæði að aukast jafnt og þétt og var á síðasta ári 7% af VLF sem er afar hátt hlutfall í bæði sögulegu og í alþjóðlegum tilliti.

 

Miklar verðhækkanir íbúðarhúsnæðis og kaupmáttarvöxtur hafa verið helsti drifkraftur þessarar miklu fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Frá aldamótum og fram til ársloka síðasta árs hefur raunverð íbúða hækkað um 60% og kaupmáttur margfaldast.

 

Nú er kaupmáttur hins vegar að lækka sem og raunverð íbúðarhúsnæðis. Mikið er nú til af nýju óseldu húsnæði. Þær tölur sem nefndar hafa verið í þessu sambandi eru á bilinu 5.000 -7.000 íbúðir sem samsvarar því að eftirspurn næstu 2-3 ára hefur þegar verið mætt sé miðað við eðlilega þróun. Þetta mun koma til með að hraða þeim aðlögunarferli sem byggingariðnaðurinn stendur nú frammi fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×