Viðskipti innlent

Exista fjarri því að vera tæknilega gjaldþrota

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista.
Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista.

Danska blaðið Börsen heldur því fram í grein í dag um íslenskt efnahagslíf að Exista sé nálægt því vera tæknilega gjaldþrota þar sem eigið fé félagsins hafi gufað upp að undanförnu. Sigurður Nordal, talsmaður Exista, segir það fjarstæðu að eigið fé félagsins sé tæknilega uppurið.

Blaðið styðst við útreikninga Michael West Hybholt, sem er yfirmaður greiningardeildar Nordea-bankans, í umfjöllun sinni um Exista. Þar kemur fram að markaðsvirði félagsins sé um 140 milljarðar. Eigið fé félagsins var 216 milljarðar um áramótin en ef tekið er mið af hruni á gengi bréfa Exista í félögum á markaði og viðskiptavild er fjarlægð þá er eigið fé þess ekki meira en 12 milljarðar segir í skýrslu Nordea. Samkvæmt útreikningum Nordea segir Börsen að Exista sé næstum tæknilega gjaldþrota.

Hypholt bendir þó í greininni í Börsen að Exista hafi tryggt sér fjármögnun fram á mitt ár 2009 og bókhaldslega hafi félagið ekki gert neitt rangt.

"Þessi frétt er ekki hófstillt og ber einkenni æsifréttamennsku. Því fer fjarri að eigið fé Exista sé tæknilega uppurið. Við fórum ítarlega yfir stöðu Exista í lok janúar og hún er ekkert lík því sem lýst er í greininni. Það eru til að mynda engin rök fyrir því að færa niður viðskiptavildina sem er tilkominn vegna VÍS og Lýsingar," segir Sigurður Nordal, talsmaður Exista í samtali við Vísi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×