Sport

Fyrsta gullið og stórbætt heimsmet

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Phelps vann sín fyrstu gullverðlaun í nótt.
Michael Phelps vann sín fyrstu gullverðlaun í nótt. Nordic Photos / AFP
Michael Phelps vann til fyrstu gullverðlaunanna sem í boði voru í keppni í sundi á Ólympíuleikunum í Peking. Hann mölbraut eigið heimsmet í 400 metra fjórsundi.

Phelps bætti Ólympíumetið strax í undanrásunum í gær og gaf þá strax tóninn. Hann á möguleika á því að vinna átta gullverðlaun á leikunum og bæta þar með met landa síns Mark Spitz. Miðað við árangurinn í dag virðist hann í stakk búinn fyrir ótrúleg afrek.

Phelps kláraði sundið á 4:03,84 mínútum og bætti heimsmetið sem hann setti fyrir rúmum mánuði um 1,41 sekúndu sem er vitanlega ótrúlegt afrek.

Hans helstu keppunautar voru Ungverjinn Laszlo Cseh og Ryan Lochte frá Bandaríkjunum.

Þessir þrír voru í nokkrum sérflokki og eftir baksundið voru Bandaríkjamennirnir komnir nokkuð fram úr. En Phelps kláraði bringusundið á frábærum millitíma og stakk svo af á lokakaflanum, í skriðsundi. Lochte reyndi hvað hann gat til að halda í við Phelps en átti hreinlega ekki roð í hann.

Cseh færði sér það í nyt og kom annar í mark á nýju Evrópumeti, 4:06,16. Lochte kom svo þriðji í mark, tæpum tveimur sekúndum á eftir Cseh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×