Viðskipti innlent

Krónan hefur styrkst um rúm 3% frá í morgun

Gengisvísitala krónunnar er nú 240,0 stig og hefur króna styrkst um 3,1% frá opnun markaðarins.

Nokkur viðskipti hafa verið frá opnun millibankamarkaðar með gjaldeyri í morgun kl. 9:15. Gengi krónunnar var rétt við 187 gagnvart evru við opnun markaðarins en skömmu fyrir hádegi stóð hún hins vegar í nær 180 krónum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að ljóst sé að sterkari króna og aukinn slaki í hagkerfinu mun leiða til hjöðnunar verðbólgu. Takist það markmið stjórnvalda og Seðlabankans að treysta stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styrkingu krónunnar mun verðbólgan hjaðna hratt hér á landi á næstu misserum.

Verðbólgan sem nú telur 17,1% gæti þá hæglega verið komin niður í 4,5% sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir í lok næsta árs þó svo að hún aukist eitthvað í bráð vegna þeirra áhrifa sem enn eiga eftir að koma fram vegna gengislækkunar síðustu mánaða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×