Viðskipti innlent

Velta í dagvöruverslun minnkaði um 2,3% í apríl

Velta í dagvöruverslun minnkaði um 2,3% í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi.

Hækkun á verði dagvöru á einu ári var 13,7% og milli mánaðanna mars og apríl hækkaði verð á dagvöru um 6,2% samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Þetta kemur fram hjá Rannsóknarsetri verslsunarinnar.

Á milli mánaðanna mars og apríl minnkaði velta dagvöruverslana um 10% á föstu verðlagi. Við samanburð á veltu dagvöruverslunar á milli ára ber að hafa í huga að í fyrra voru páskarnir í apríl en í mars í ár. Páskarnir hafa ávallt í för með sér aukna dagvöruverslun.

Sala áfengis jókst um 3,7% í apríl miðað við sama mánuð árið áður. Verð á áfengi hækkaði um 4,1% frá því í apríl í fyrra.

Aukning varð í fataverslun á milli ára og enn meiri í skóverslun. Fataverslun jókst um 11,8% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra.

Mikil aukning varð í skóverslun í apríl eða 17,1% á milli ára og um 19,8% ef miðað er við mars þar á undan. Verð á skóm í apríl hafði hækkað um 2,9% frá því í apríl í fyrra.

Í apríl minnkaði velta í húsgagnaverslun um 10,3% á föstu verðlagi miðað við mánuðinn á undan. Verð á húsgögnum hækkaði um 2,9% frá mánuðinum á undan og hefur hækkað undanfarna mánuði eins og aðrar vörur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×